Hera Ármannsdóttir (1966-2013)

Öflugur liðsmaður Blakdeildar Hattar er fallinn frá. Hera Ármannsdóttir var framsækinn blakari og ákafur baráttujaxl. Hún hafði mikinn metnað fyrir blakíþróttinni. Hún var ávallt reiðubúin og gaf félögum sínum ómælda vinnu, dugnað og baráttuvilja á meðan hún gat. Hún var einstaklega vinnusöm og ósérhlífin og hljóp í þau verk sem þurfti. Hera var formaður deildarinnar í nokkur ár, þjálfaði nýbyrjaða sem lengra komna blakara, dæmdi leiki og stjórnaði mótum. Ungliðastarf var mikilvægt í huga Heru og til að efla það tók hún að sér að þjálfa börn og unglinga. Áhugi hennar á strandblaki smitaði út frá sér og ekki síst fyrir hennar tilstilli má á sumrin sjá Hattarfólk spila strandblak á tveimur völlum.

Hera gerði miklar kröfur til sín sem blakara, mætti alltaf á æfingu ef hún gat og var í formi sem flest ungmenni væru stolt af. Hálfkák var ekki til í hennar huga. Hera var öflugur liðsfélagi sem hvatti til stórræða á vellinum. Hún var fyrst og fremst keppnismanneskja og gaf aldrei tommu eftir. Ekkert lið var ósigrandi í hennar huga, barátta fylgdi hverju stigi og sigurviljinn var alltaf í fyrirrúmi.

Með sama hugarfari mætti Hera sjúkdómi sínum. Þar dugði ekkert hálfkák, baráttuviljinn réð för og keppnisskapið skilaði henni mörgum stigum. Fram á síðustu stundu trúði hún á sigur sinn.

Um leið og við þökkum Heru ómetanlegt framlag til blakstarfsins og góða samfylgd sendum við blakfélögum okkar Jóni Grétari og Sigga, Margréti Irmu og Lúkasi Nóa ásamt öðrum ástvinum hennar innilegar samúðarkveðjur. Minningin um einstaka keppniskonu og góðan félaga lifir í blakhjörtum okkar.

Félagar í Blakdeild Hattar.