Fréttabréf september 2010

Nú er blakið hjá okkur komið á fullt þetta haustið.

Sævar Már Guðmundsson kom til okkar sl. föstudag og laugardag og var með æfingabúðir fyrir hóp fólks sem svitnaði og skemmti sér vel. Hera Ármannsdóttir var tengiliður okkar og umsjónarmaður búðanna.

Þjálfaramál eru orðin nokkuð klár í bili. Jón Grétar Traustason þjálfar meistaraflokk karla, Elínborg Valsdóttir stjórnar æfingum hjá meistaraflokki kvenna og hefur þar til leiðsagnar reyndan blakara á Norðfirði (Kristín Salin) sem sér um að setja upp æfingaplön fyrir byrjendur og lengra komna. Kristín kemur síðan nokkra sunnudaga (hún kemst alls ekki í annan tíma) og verður með æfingar fyrir meistaraflokk kvenna, getuskipt og aðeins eitt getustig í einu. Fyrsta æfingin hennar verður 3. október og þá með vanar blakkonur.

Barna- og unglingastarfið er farið af stað. Brynjar Gauti Snorrason er með samkrullið Blak-frjálsar-karfa og Karen Rós Sæmundardóttir er með æfingar fyrir 10-12 ára.

Æfingagjöld hafa verið ákveðin kr. 10000 á einstakling og kr. 15000 á hjón fyrir tímabilið sept-des 2010. Greiðsluseðlar verða sendir út í október.

Höttur verður með á Íslandsmótinu í 2. og 3. deild kvenna og í 2. deild karla. 2. deildin spilar heima og heiman en 3. deildin spilar þrjár umferðir í vetur sem spilast í turneringum (heill dagur fer í heila umferð, eins og lítið blakmót). Búið er að sækja um að ein umferð í 3. deild kvenna verði spiluð á Egilsstöðum eftir áramótin. Ekki er búið að dagsetja leiki í 2. deild karla og kvenna.