Höttur lauk Íslandsmótinu með sóma

Seinni leikurinn gegn Skallagrími í undanúrslitum úrslitakeppni 1. deildar KKÍ tapaðist í kvöld með 77 stigum gegn 88.  Eftir jafnan fyrri hálfleik náðu Skallagrímsmenn undirtökunum í 3. leikhluta og þrátt fyrir góða atlögu okkar manna í lokin lönduðu Borgnesingar sigri og þar með sæti í úrslitum.  Fjölmargir áhorfendur mættu í íþóttahúsið og studdu liðið vel.

Með leiknum í kvöld lauk Höttur keppni í 1. deild KKÍ á þessu tímabili.  Liðið getur borið höfuðið hátt eftir ágætt tímabil.  Höttur lenti í 4. sæti deildarinnar eftir harða keppni um 2. sætið.  Besti árangur liðsins í mörg ár og sæti í úrslitakeppninni gaf vonir um Úrvalsdeildarsæti.  Það tókst ekki í þetta sinn en liðið er ungt og reynslunni ríkari eftir tímabilið.

Margir stuðningsaðilar hafa staðið við bakið á liðinu á tímabilinu og er þeim þakkaður stuðninginn.  Áhorfendum fjölgaði líka á pöllunum í vetur og sýndu liðinu góðan stuðning, sem er ómetanlegt.  Allt á réttri leið í körfunni!