Góður sigur Hattar á Sindra í 1.deild kvenna

  • Skoða sem PDF skjal

 

Höttur tók á móti Sindra í þriðja leiks sumarsins á Vilhjálmsvelli.

Í fyrri hálfleik lékum við á móti svolitlum vindi en aðallega stóð þó vindurinn þvert á völlinn. Leikurinn fór fjörlega af stað og á 4 mín fékk Magdalena góða stungusendingu inn fyrir vörn andstæðinganna og var komin ein á móti markmanni en tókst ekki að skora í þetta skipti.

Á 12 mín áttu Sindrastúlkur gott langskot sem Tara gerði vel í að slá yfir.

Eftir gott spil upp völlinn hæ. megin var boltinn gefinn á Örnu sem stakk síðan boltanum inn fyrir á Heiðdísi sem kláraði vel ein á móti markmanni og staðan orðin 1-0.

Mínútu síðar átti Sindri gott skot sem Tara varði með tilþrifun og hélt boltanum vel.

Eftir rúmlega hálftíma leik átti Höttur þunga sókn og mörg skot að marki Sindra en ýmist varði markmaður eða Sindrastúlkur náðu að henda sér fyrir boltann, inn vildi hann ekki en annað markið virtist liggja í loftinu.

Kristin átti langskot á 37 mín sem hafnaði í markslánni.

Magdalena átti góða tilraun með hjólhestaspyrnu á 39 mín en boltinn fór framhjá.

Besta færi Sindra kom á 41 mín, skyndilega stóð leikmaður óvaldaður fyrir miðjum vítateig en skotið var máttlaust og Tara átti ekki í erfiðleikum með að grípa hann.

Í lok hálfleiksins átti Magdalena góðan skalla sem fór hárfínt framhjá.  Í uppbótartíma skömmu eftir hornspyrnu berst boltinn til Kristínar sem afgreiddi hann snyrtilega í markið, skot utan vítateigs sem markmaðurinn átti ekki möguleika að verja.  Hálfleikstölur 2-0.

Í seinni hálfleik undan golunni var leikurinn allan tímann í höndum Hattar. Eftir gott spil leggur Sigga boltann á Örnu sem á þrumuskot sem syngur í stönginni.

Á 70 mín á Sigga laglega stungusendingu á Magdalenu sem klárar vel ein á móti markmanni, 3-0.

Þrem mínútum fyrir leikslok kom svo fallegasta markið. Magdalena tekur aukaspyrnu nokkru utan við vítateig, allir héldu að hún myndi hamra boltanum á markið en þess í stað sendir hún nett á Siggu sem kemur í hlaupinu og tekur boltann laglega með sér og leggur svo í netið. Þetta leit út fyrir að vera margæft á æfingasvæðinu,  4-0 sem urðu lokatölur leiksins.

Frammistaða leikmanna Hattar var góð, Tara öryggið uppmálað í markinu. Fjórar öftustu öflugar, dekka vel upp fyrir hver aðra, farnar að standa “línuna” betur og veiddu Sindrastúlkur nokkru sinnum í rangstöðugildru.  Bryndís hefur góðar spyrnur og oft treyst á hana að senda langsendingar út úr vörninni. Vörnin var öruggari en oft áður og spila boltanum meira á milli sín aftarlega á vellinum.

Miðjan stóð sig vel, Sigga og Lauren unnu flesta skallabolta á miðjunni og héldu boltanum vel, áttu margar af úrslitasendingum sem sköpuðu færi. Mikil yfirferð á þeim.  Arna ógnaði mikið á hæ. kanti með hraða sínum og hjálpaði vel til í vörninni einnig. Kristín er ekki eins hröð en bætir það upp með góðri boltatækni og vann vel.  Heiðdís og Magdalena voru alltaf ógnandi frammi og héldu boltanum vel þó þær væru oftast með mann í bakinu. Þær kláruðu færi sín vel í dag einar á móti markmanni.

Allir varamennirnir sem komu inná stóðu fyllilega fyrir sínu og er gaman að sjá þessa miklu breidd í liðinu.

Erfitt að velja leikmenn dagsins en pistlahöfundur útnefnir Siggu, Lauren og Magdalenu. 

Byrjunarlið

                                    Tara

Bryndís         Karítas          Fanndís        María

Arna             Lauren          Sigga           Kristín

                   Magdalena       Heiðdís

Bekkurinn: Móeiður, Natalía, Ólafía, Þórdís og Alma

You are here